Viðar Gunnarsson stundaði tónlistarnám við Söngskólann í Reykjavík þar sem Garðar Cortes var aðalkennari hans og síðar framhaldsnám hjá dr. Folke Sällström í Stokkhólmi á árunum 1981 til 1984. Viðar var ráðinn óperusöngvari við Ríkisleikhúsið í Wiesbaden árið 1990 en eftir það hefur Viðar komið fram í óperuhúsum víða um heim ásamt því að syngja reglulega við Þjóðleikhúsið og Íslensku óperuna. Á ferli sínum hefur Viðar komið fram í óperuhúsum s.s. í Ríkisóperunni í Berlín, Bonn, Frankfurt, Stuttgart, Wiesbaden, Dortmund, Þjóðaróperunni í Vínarborg, Prag, Tel Aviv og Seoul í Suður-Kóreu.
Viðar hefur á sínum ferli sungið flest öll helstu bassahlutverk óperubókmenntanna en meðal hlutverka Viðars má nefna titilhlutverkið í Boris Godunov, Ramfis í Aida, Colline í La Bohème, Pater Guardiano í Á valdi örlaganna, Fiesco í Simon Boccanegra, Zaccaria í Nabucco, Grand’Inquisitor í Don Carlos, Sarastro í Töfraflautunni, Il Commendatore í Don Giovanni, auk ólíkra hlutverka í mörgum af óperum Wagners, s.s. Hagen í Götterdämmerung, báða risana þá Fosolt og Fafner í Niflungahringnum, Landgreifan í Tannhäuser og König Heinrich í Lohengrin.
Eftir að hann flutti frá Þýskalandi árið 2011, hefur hann verið mjög virkur í sönglífinu hér heima m.a. hefur hann tekið reglulega þátt í uppfærslum Íslensku Óperunnar í Hörpu en nú núverið tók hann þátt í frumflutningi á óperunni Ragnheiði eftir Gunnar Þórðarsson en þar fór hann með hlutverk Brynjólfs biskups, en einnig kennir hann við Söngskólann í Reykjavík og Söngskóla Sigurðar Demetz. Einnig er Viðar einn Sætabrauðsdrengjanna en í þessum hópi eru margir okkar þekktustu óperusöngvara og hafa þeir vakið athygli fyrir fágaðan söng og ekki hvað síst mikla glettni. Viðar hefur verið tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna og einnig tilnefndur til Grímunnar, Íslensku Sviðlistaverðlaunanna.